Nei

Hún þarf eitt blogg hún dóttir mín. Eins og hálfs árs er hún að stimpla sig inn sem sú  ljúfasta einræðisfröken sem ég hef hitt. Með krullurnar og stóru bláu augun sín (að ég eigi bláeyga dóttur með ljósar krullur er staðreynd sem ég er enn að ná) vefur hún okkur hinum fjórum um sína litlu putta með bendingum og einföldum en meitluðum skilaboðum.

Annars er hún í málræktarátaki um þessar mundir og orðin sallast inn. Þetta felst að töluverðu leiti í því að hún bendir og ég segi henni heitin og hún velur hvað hún tekst á við að herma eftir mér. Það gerist ekki endilega strax þó, hún á það til að draga þau upp úr pússi sínu þegar mikið liggur við eins og um daginn heima hjá ömmu S. Þar er forláta þýsk kúkúklukka sem hún benti á og sagði í fyrsta skiptið: Gukka! við gríðarlegan fögnuð viðstaddra. Þetta þakka ég nú helst því reyndar að henni hefur tekist afar vel að nefna heitin á því sem fer í bleyjuna, meira að segja essin heyrast mjög vel í piss.

En að öðrum orðum ólöstuðum þá lærði hún orð núna fyrir skemmstu sem er það áhrifaríkasta hingað til; Nei. Og notar það óspart. Viltu koma uppúr baði? -NEI! Namminammi lýsi! -NEI! Nú áttu að fara inn að lúlla -NEINEINEI!!! En þetta þýðir þó að núna get ég átt smá samskipti við hana. Hún bendir í bókahilluna og segir Bökó og Bíbí og þá veit ég að hún vill bók með fugli í. Þar sem það útilokar kannski eina bók verð ég benda og hún segir Nei þangað til að rétta bókin birtist. Alveg magnað að mér finnst. Nú veit ég nákvæmlega hvað hún vill ekki, sem er góð byrjun þrátt fyrir að við séum ekki endilega alltaf sammála. Enda vona ég að hún komi ekki til með að herma alla hluti eftir mér, og haldi áfram að kunna að afþakka það sem hentar henni ekki.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahahahaha - ég var búin að gleyma nei-inu og öllu því sem því fylgir - ég man bara að orðinu -viltu- fækkaði allduglega í samskiptum mínum við syni mína eftir að nei-ið birtist.

Gleðilegt sumar!

Kv. Guðfinna (krullupinni.bloggar.is)

Gilitrutt (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 09:17

2 Smámynd: Rúnarsdóttir

Ég var búin að gleyma þessum dásamlega aldri líka. Núna hefur nei-inu á mínu heimili verið skipt út fyrir gullmola eins og djíses, glætan, lít ég út fyrir að mega vera að því? og my personal all time favourite: Æji Mamma!!  

Mig langar að knúsa Nóru í köku! 

Rúnarsdóttir, 24.4.2007 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband