112!

Í dag hringdi ég í fyrsta skipti í 112. Í nokkra daga hefur maðurinn minn þjáðst af flensu. Ekkert óvanalegt við hana, bara svona hor og hósti, slappleiki og verkir víðsvegar. Ég hef verið hress og hjúkrað honum af bestu getu, og var þessvegna farin að hrósa sjálfri mér í huganum ótrúlega hjúrkunarhæfni í gær þegar hann var farin að borða og segja brandara.

En í morgun var smá ræfill í honum sem fór stækkandi, þangað til hann kúrði sér í fósturstellingu í stól inní stofu og hvíslaði að 'það væri eitthvað mikið að sér...' Ég náttúrulega brást við með því að hella sjóðandi heitu vatni í skál með dropa af Eucalyptus úti og flutti hann veikburða að henni og sagði honum að anda vel að sér. Hann fór að anda, en svo hætti hann að geta andað. Greip í handlegginn á mér og reyndi að soga að sér lofti með miklu ískri og harmkvælum. Ég hélt fyrst að hann væri að fíflast í mér, ekki alveg úr takti fyrir hann, en þegar hann var farinn að hvítna og svo blána varð mér ekki um sel. Ég þaut í símann og fann sterka óraunveruleikatilfinningu hellast yfir mig þegar ég valdi 112, eins og ég fylgdist með sjálfri mér úr fjarska.

Ég reyndi að rifja upp fyrstu hjálp, en þar leyndist ekkert sem ég gat notað, ég bara panikkeraði. Á meðan maðurinn minn lyppaðist fram á borðið í andnauð, kaldsveittur með tóm augu, gat ég ekkert gert fyrir hann. Ég orðin virkilega skelkuð, stóri sterki minn barðist máttvana fyrir hverjum andadrætti með hrikalegum soghljóðum og ég var farin að skæla þegar mér var svarað. Ég útskýrði alvöru málsins og áður en 3 mínútur voru liðnar voru mætt inn á gólf til okkar 5 manns í gulum göllum. Þá hafði hann hjarað aðeins við, en sagðist vera allur dofinn og var greinilega ekki alveg í sambandi, rennsveittur og náhvítur var hann lagður í sófann og allskonar græjur festar við hann. Ekkert fannst að honum, þó hann virtist hressast aðeins við að fá súrefni.

Þannig að honum var ekið á slysó. Þar fór smá saman að brá af honum mesta slenið og öll möguleg próf gerð aftur og meira til. Hann fór inn um 2 leitið og lá í rúmi með slöngur og nálar í sér þangað til rétt fyrir 8. Þá úrskurðaði læknir að hann væri með inflúensu. Svona sem gamalt fólk deyr úr. Ekki bara flensu. Það veit engin afhverju hann hætti að anda og dofnaði, það var allavega ekki Eucalyptus dropinn:) Þannig að við verðum bara að vona að þetta gerist ekki aftur...

Ég er svo þreytt og glöð núna. Við erum saman heima með krökkunum og hann fær ðe rojal trítment. Svona atvik setja konu í samband við raunveruleikann. Ég er þakklát fyrir að okkar áminning var svona meinlaus þegar allt kom til, og ég ætla að láta þetta hafa áhrif á mig til hins betra. En fyrst held ég að ég þurfi að vera lítil í smá stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnarsdóttir

Almáttugur minn! Ég hlakka til að knúsa þig þegar við hittumst í vikunni. Og Ágústa, við munum hittast í vikunni!

Rúnarsdóttir, 19.3.2007 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband