barnið þitt mitt og okkar / uppeldisaðferðir póstmódenískrar fjölskyldu

Er ekki alltaf einfalt að vera stjúpmamma. Þetta hlutverk sem ég fékk fyrir 8 árum eða svo hefur fært mér áskoranir sem hafa krafist af mér að stækka langt umfram ímyndaða getu. Aðallega er það hjartað sem hefur fengið að njóta þess; þegar þessi kall sem er óðum að vaxa mér yfir höfuð (nýorðin 13) hleypur til mín fyrst til að útskýra síðustu uppgötvanir eða taka á sig krók framhjá fullt af fólki til að biðja mig álits á einhverju skil ég að ástin er eftirsóknarverðust. Því þegar ég er annars vegar þá á hann val um hvort hann elskar mig eða ekki, hvort hann vill hlusta á mig og taka mark á mér eða sleppa því. Hann velur að elska mig. Af einlægni sem kennir mér hvernig manneskja ég vil vera. 

Hann hefur suðað í mér 'að stinga sig' í heila eilífð (ath undirrituð er nálastungufræðingur) og ég hummað það frammaf mér jafnlengi í skjóli þess að hann er stálhraustur náungi. Þangað til hann heyrði mig lýsa því fjálglega í símann við einhvern að sjúkdómur þyrfti ekki að vera til staðar, nálastungur væru tilvaldar til að magna upp og jafna út lífsorkuna osfrv... Hann stökk á þetta, og í kvöld rann stundin upp að hann yrði stunginn. Hetjan sat stóreyg þegar ég dró nálarnar upp með leikrænum tilburðum, kyngdi svo og tilkynnti að ég þyrfti ekkert að gera þetta ef ég vildi það ekki. Ég ákvað að gera drengnum það ekki að leyfa honum að gungast útúr þessu, en stakk hann bara með fínustu nálunum mínum mjög grunnt og laust og stutt, sem var auðvitað ekkert sárt. Hálfsá eftir því, hann uppveðraðist svo yfir eigin karlmennsku að hann vildi helst að ég færi að pikka nálum í olnboga og enni, og spurningaflóðgáttirnar opnuðust sem aldrei fyrr. Þannig að fyrir liggur fyrirlestur um kínverskar lækningar þvi hann 'langar að vita allt um þetta en veit bara ekki að hverju hann á að spyrja'... Blessað barnið hefur ekki hugmynd um hvað hann er að kalla yfir sig.

Hinn, þessi 14 ára og ég fæddi sjálf, varð fullorðinn í dag held ég. Hann tilkynnti okkur H um daginn að hann ætlaði að fara að vinna í bakaríi annanhvern laugardag frá sjö til fimm, hann þyrfti að læra að vinna og græða í leiðinni pening. Jessör. Þetta kom gersamlega flatt uppá mig, í ljósi þess að hann þarf 6 vikna tilhlaup til að taka til í herberginu sínu, og vera hárrrétt upplagður til að orka að sópa undan rúminu skítugu nærbuxunum. Mér fannst hæpið að vinnugleðin myndi fleyta honum í gegnum 10 tíma kruðerísvakt. Ég heyrði mig segja; 'Við skulum ræða þetta mál aðeins..' og fannst ég vera mjög fullorðin og ábyrg.

Sannleikurinn er hinsvegar sá að ég hef antípat á vinnuþrælkun barna sem viðgengst á Íslandi. Ég sjálf vann alltaf öll sumur frá 10/11 ára aldri, rakaði inn seðlum þegar ég var orðin unglingur og drakk, reykti og keypti föt fyrir það allt í anda eitís velmegunarflipps. Mig langar ekki til að mínir krakkar missi af bernskunni afþví þau verða að eignast nýjasta ipodinn. Sem betur fer er maðurinn minn sammála mér, allt röfl um að 'börn eigi að læra að vinna' finnst okkur vera mjög sorrý afsökun fyrir því að þröngva þeim inní neysluklikkunina sem fyrst, hangandi föl og fálát við búðarkassana til að eiga fyrir drasli sem kallar á meira drasl. Þau eiga að leika sér og vera blönk, við eigum ekki að svipta þau ábyrgðarleysinu svona snemma.

Við ákváðum eftir spjall og vangaveltur með stráksa að hann hefði nokkuð til síns máls; við skiljum vel að hann langi í svolítið meiri vasapening en hann fær hjá okkur, og það er ekkert slæmt við það að 'læra að vinna'. Það er hinsvegar eðlismunur á því hvort hann er að læra eitthvað sem kemur honum til góða í framtíðinni og tekur ekki frá honum megnið af dýrmætum frítíma, eða hvort hann afplánar langdreginn leiðindi sem engu skila nema peningum í vasann. Útúr þessu kom soldil snilld, við ákváðum að bjóða honum að skúra hjá mér stofuna og ráðast í að gera valinn Exel verkefni sem hann fengi borgað fyrir að leysa af hendi. Margar flugur slegnar í einu; drengurinn vinnur svona 2-3 tíma á viku, og lærir að skúra og taka ábyrgð og setja upp töflur undir farsælli leiðsögn mömmu og stjúpa, ég þarf ekki að eyða tíma í þrif á stofunni og H lærir á Exelinn af drengnum... betra gæti það ekki verið ha?

Semsagt, þetta hófst í dag. Drengurinn skúraði stofuna mína undir strögnu eftirliti, þurrkaði af og þreif klósett með stæl, mamma hans bara varð að viðurkenna að hann réði alveg við verkefnið og meira til. Eftir kvöldmat fóru þeir feðgarnir út og við mæðginin vorum eftir heima. Ég trillaði erfðaprinsessunni 16 mánaða í bólið og þegar ég kom fram var sonur minn búin að ganga frá eftir mat. Óumbeðinn. Aleinn. Mér tókst að sleppa því að fara flikkflakk af gleði um stofuna (kannski öllum fyrir bestu) en bara rétt svo, ég hrósaði honum eins virðulega og hæfir að hrósa fullorðnum manni fyrir einföld verk, því ekki vildi ég tala niður til hans og eiga á hættu að hann leggði niður störf af þessu tagi. Hann yppti bara öxlum og sagði 'no problemo'...  Hann var ánægður með að hafa unnið í dag, hann finnur til sín og hefur efni á því. Alltaf gott þegar hlutir heppnast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnarsdóttir

Ef þú ert ekki þessi bloggtýpa þá veit ég ekki meir frábæra stelpa. Þetta var yndisleg lesning fyrir svefninn, elska ykkur öll í kremju og ef ég er ekki að verða veik þá mun ég leggja ýmislegt á mig til að sjá framan í ykkur um helgina.

Rúnarsdóttir, 9.3.2007 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband