Færsluflokkur: Bloggar
13.3.2007 | 10:07
Auðvelt val
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2007 | 20:28
Kallinn í kassanum
Fór í Sorpu í dag með flöskur og föt. Ekkert sérlega merkilegt, útaf fyrir sig, sérstaklega þegar kona jafn næm og ég á ábyrgð mína sem neytanda á í hlut (ehmm). Hleyp í þetta svo yfirvaldið litla truflist ekki á meðan í bílstólnum, flöskurnar í einn gám og rosa sveifla með hinn ruslapokann á spretti í Rauðakross gáminn, en var rétt búin að dúndra pokanum í hausinn á frekar hippalegum náunga sem var greinilega vanur að verjast svona sendingum með augnráðinu einu saman. Hann stóð semsé inní gámnum í fatahrúgum uppí nára og hélt á norskri prjónapeysu. Ég rétt náði að kippa pokanum að mér og reyndi að fela undrandisvipinn með glaðlegasvipnum og bauð góðan dag með pokann í fanginu eins og ég hefði búist við honum þarna. Það beit ekkert á kauða. Hann var tilbúinn með ræðuna. Sérútbúna handa plebbum eins og mér sem ekki gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að hafa fötin í poka! (Ég enn brosandi: 'Já, ehh.. ég hef nú alltaf reynt að passa uppá það..') Vegna þess að gámurinn lekur hérna í horninu!! (Bendir ákveðið í norðvesturhorn gámsins). Hann útlistaði enn frekar reglur um lokun og opnun fatapoka, en þar sem ég glitti í óveðurskýin hrannast upp í andliti dóttur minnar reyndi ég að halda ákveðnum augnkontakt og kinka brosandi til Garmasníkis á meðan ég laumaði pokanum mínum innfyrir hans lögsagnarumdæmi og tiplaði afturábak í burtu.
Það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég áttaði mig á furðuleika málsins. Ég er að hugsa um að fara aftur á morgun til að gá hvort hann sé þarna enn. Ég held nefnilega að jafnvel hafi hann í raun verið afturgengin ruslakall sem átti verkum ólokið hérna megin. Eða kannski eftirlegukind atvinnumótmælenda ofan af hálendinu sem hefur vetursetu í gámnum og heldur sér við með að terrorisera húsmæður í vesturbænum? Eða var þetta kannski bara falin myndavél?
Mér stendur alls ekki á sama. Því það getur ekki átt sér eðlilegar skýringar að það standi maður í gámnum allan daginn að segja fólki til afþví að gámurinn lekur. Ég neita að trúa því að hluti framlaga til Rauða Krossins fari í laun þessa pirraða manns í stað þess að skipta um gám. Eða setja upp skilti. Nówei.
Hvernig ætli starfsauglýsingin hafi annars hljómað...? ' Vanan mann vantar í gám. Má reykja, ómannblendni æskileg, má ekki þjást af innilokunarkennd.'
Það er ekki eins og ég hafi of lítið að gera, en sum mál bara verða að hafa forgang.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2007 | 15:27
Ofurkonumegalomania syndrome*
*Sálrænn sjúkdómur sem leggst einkum á konur á barnseignaaldri, en útbreiðsla hans hefur aukist jafnt og þétt síðastliðna tvo til þrjá áratugi, sumir halda fram að um faraldur sé að ræða. Ekki ber heimildum saman um hvað útskýrir þessa miklu aukningu en hefur verð líkt við sjúkdóma eins og anorexia nervosa og chronic fatique syndrome að áhrif umhverfis og 'tíðaranda' útskýri að mestu leiti hraða útbreiðslu hans. Rannsóknir eru engar svo lítið er hægt að fullyrða.
Einkenni hans lýsa sér í því að skömmu eftir fyrsta barnsburð fær konan á heilann að hún eigi að sinna sjálfri sér og fjölskyldu sinni af ýtrustu kostgæfni; vera búin að missa meðgöngukílóin 10-20 innan 6 vikna, elda og baka lífrænan mat, fara í ræktina, halda matarboð, klára ritgerðina, vinna heima í tölvunni, hafa sterkar skoðanir á stjórnmálum, halda úti heimasíðu, hugleiða, halda minimalísku heimilinu óaðfinnanlegu, strauja samfellurnar og fá raðfullnæginar svo fátt eitt sé nefnt. Þessar hugmyndir sem hefjast í barnsburðarleyfi ágerast og aukast eftir því sem barnið eldist og/eða börnunum fjölgar, og áherslur geta aukist á einstaka þætti eins og frama í starfi eða útlit.
Þegar konunni ekki tekst að sinna öllum þáttum sem hún telur vera forsendur hamingjunnar fer að bera á því sem kallað er á fræðimáli 'Ekki-Nógu-Góð-Hugmyndir' en þá fer konan að sjá í hverju horni og hjá öllum öðrum óunninn afrek og verkefni sem hún ætti að vera að sinna ef hún bara væri nógu dugleg og drífandi. Þetta veldur vanlíðan sem konan bregst við með því að setur sér enn háleitari markmið sem enn erfiðara er að ná, og myndast þá vítahringur ranghugmynda sem skilgreina sjúkdóminn og nefndir eru lauslega hér að ofan.
Sjúkdómurinn er ekki talin lífshættulegur, en hefur úrslitaáhrif á líðan konunnar og möguleikum hennar til að ná andlegu jafnvægi og setja sér raunhæf markmið. Rannsóknir eru allar á frumstigi, en tilurð hans talin útskýra a.m.k. að hluta gríðarlega aukningu í þörf á gæslurými barna, en eitt einkenni sjúkdómsins er að konan telur að hún sýni dugnað sinn best i því að vinna úti allan daginn og hugsa að megninu til um heimilið og börnin líka. Óaðfinnanlega.
Talið er að flestar konur finni fyrir einkennum sjúkdómsins að einu eða öðru leiti einhverntíma á ævinni, en greining hans er enn mjög á reiki þar sem hann er í eðli sínu lævís og sjúklingarnir lítt til þess fallnir að greina merki hans sjálfar. Meðferð er engin, en líklegt þykir að gott sé að reyna af fremsta megni að kynnast sjálfri sér og þróa með sér tornæmi á tískutrend og markaðsetningu æskilegra persónueinkenna kvenna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er ekki alltaf einfalt að vera stjúpmamma. Þetta hlutverk sem ég fékk fyrir 8 árum eða svo hefur fært mér áskoranir sem hafa krafist af mér að stækka langt umfram ímyndaða getu. Aðallega er það hjartað sem hefur fengið að njóta þess; þegar þessi kall sem er óðum að vaxa mér yfir höfuð (nýorðin 13) hleypur til mín fyrst til að útskýra síðustu uppgötvanir eða taka á sig krók framhjá fullt af fólki til að biðja mig álits á einhverju skil ég að ástin er eftirsóknarverðust. Því þegar ég er annars vegar þá á hann val um hvort hann elskar mig eða ekki, hvort hann vill hlusta á mig og taka mark á mér eða sleppa því. Hann velur að elska mig. Af einlægni sem kennir mér hvernig manneskja ég vil vera.
Hann hefur suðað í mér 'að stinga sig' í heila eilífð (ath undirrituð er nálastungufræðingur) og ég hummað það frammaf mér jafnlengi í skjóli þess að hann er stálhraustur náungi. Þangað til hann heyrði mig lýsa því fjálglega í símann við einhvern að sjúkdómur þyrfti ekki að vera til staðar, nálastungur væru tilvaldar til að magna upp og jafna út lífsorkuna osfrv... Hann stökk á þetta, og í kvöld rann stundin upp að hann yrði stunginn. Hetjan sat stóreyg þegar ég dró nálarnar upp með leikrænum tilburðum, kyngdi svo og tilkynnti að ég þyrfti ekkert að gera þetta ef ég vildi það ekki. Ég ákvað að gera drengnum það ekki að leyfa honum að gungast útúr þessu, en stakk hann bara með fínustu nálunum mínum mjög grunnt og laust og stutt, sem var auðvitað ekkert sárt. Hálfsá eftir því, hann uppveðraðist svo yfir eigin karlmennsku að hann vildi helst að ég færi að pikka nálum í olnboga og enni, og spurningaflóðgáttirnar opnuðust sem aldrei fyrr. Þannig að fyrir liggur fyrirlestur um kínverskar lækningar þvi hann 'langar að vita allt um þetta en veit bara ekki að hverju hann á að spyrja'... Blessað barnið hefur ekki hugmynd um hvað hann er að kalla yfir sig.
Hinn, þessi 14 ára og ég fæddi sjálf, varð fullorðinn í dag held ég. Hann tilkynnti okkur H um daginn að hann ætlaði að fara að vinna í bakaríi annanhvern laugardag frá sjö til fimm, hann þyrfti að læra að vinna og græða í leiðinni pening. Jessör. Þetta kom gersamlega flatt uppá mig, í ljósi þess að hann þarf 6 vikna tilhlaup til að taka til í herberginu sínu, og vera hárrrétt upplagður til að orka að sópa undan rúminu skítugu nærbuxunum. Mér fannst hæpið að vinnugleðin myndi fleyta honum í gegnum 10 tíma kruðerísvakt. Ég heyrði mig segja; 'Við skulum ræða þetta mál aðeins..' og fannst ég vera mjög fullorðin og ábyrg.
Sannleikurinn er hinsvegar sá að ég hef antípat á vinnuþrælkun barna sem viðgengst á Íslandi. Ég sjálf vann alltaf öll sumur frá 10/11 ára aldri, rakaði inn seðlum þegar ég var orðin unglingur og drakk, reykti og keypti föt fyrir það allt í anda eitís velmegunarflipps. Mig langar ekki til að mínir krakkar missi af bernskunni afþví þau verða að eignast nýjasta ipodinn. Sem betur fer er maðurinn minn sammála mér, allt röfl um að 'börn eigi að læra að vinna' finnst okkur vera mjög sorrý afsökun fyrir því að þröngva þeim inní neysluklikkunina sem fyrst, hangandi föl og fálát við búðarkassana til að eiga fyrir drasli sem kallar á meira drasl. Þau eiga að leika sér og vera blönk, við eigum ekki að svipta þau ábyrgðarleysinu svona snemma.
Við ákváðum eftir spjall og vangaveltur með stráksa að hann hefði nokkuð til síns máls; við skiljum vel að hann langi í svolítið meiri vasapening en hann fær hjá okkur, og það er ekkert slæmt við það að 'læra að vinna'. Það er hinsvegar eðlismunur á því hvort hann er að læra eitthvað sem kemur honum til góða í framtíðinni og tekur ekki frá honum megnið af dýrmætum frítíma, eða hvort hann afplánar langdreginn leiðindi sem engu skila nema peningum í vasann. Útúr þessu kom soldil snilld, við ákváðum að bjóða honum að skúra hjá mér stofuna og ráðast í að gera valinn Exel verkefni sem hann fengi borgað fyrir að leysa af hendi. Margar flugur slegnar í einu; drengurinn vinnur svona 2-3 tíma á viku, og lærir að skúra og taka ábyrgð og setja upp töflur undir farsælli leiðsögn mömmu og stjúpa, ég þarf ekki að eyða tíma í þrif á stofunni og H lærir á Exelinn af drengnum... betra gæti það ekki verið ha?
Semsagt, þetta hófst í dag. Drengurinn skúraði stofuna mína undir strögnu eftirliti, þurrkaði af og þreif klósett með stæl, mamma hans bara varð að viðurkenna að hann réði alveg við verkefnið og meira til. Eftir kvöldmat fóru þeir feðgarnir út og við mæðginin vorum eftir heima. Ég trillaði erfðaprinsessunni 16 mánaða í bólið og þegar ég kom fram var sonur minn búin að ganga frá eftir mat. Óumbeðinn. Aleinn. Mér tókst að sleppa því að fara flikkflakk af gleði um stofuna (kannski öllum fyrir bestu) en bara rétt svo, ég hrósaði honum eins virðulega og hæfir að hrósa fullorðnum manni fyrir einföld verk, því ekki vildi ég tala niður til hans og eiga á hættu að hann leggði niður störf af þessu tagi. Hann yppti bara öxlum og sagði 'no problemo'... Hann var ánægður með að hafa unnið í dag, hann finnur til sín og hefur efni á því. Alltaf gott þegar hlutir heppnast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2007 | 01:07
Bloggjómfrúarleg frumraun ..
Soldið feimin við þetta bloggstúss alltsaman. Enn ekki viss um hvort ég er þessi bloggtýpa. Veit reyndar að ég gæti hægast soðið saman sannfærandi bloggpersónuleika sem er í senn þenkjandi og fyndin, víðlesin og meðvituð... Sona til að ganga í augun á þeim sem hugsanlega slysast hér inn. Fyrir hvern er maður svosem að blogga og til hvers? Hef ég eitthvað fram að færa sem mér finnst heimurinn vanti að vita og skilja? Er bloggið leið til að vekja á mér athygli, eða er ég að teygja mig útí heiminn með þessum hætti, tengjast öðrum í veröldinni í von um .. nei nú hætti ég áður en ég fer að gráta. Aðeins of djúpt svona í fyrstu málsgrein, minna er meira.
Sit við nýja risaborðið mitt og bíð eftir manni og syni sem eru á leið heim frá KEF; sonurinn (stjúp- reyndar en er orðin svo mikið minn) kominn heim frá móður sinni í útlöndum nær, og átta mig á því að við erum faraldsfjölskylda mikil. Fluttum frá útlöndum til hálfs fyrst, svo alveg en ekki alveg öll, en erum óðum að skríða á land hérna megin.... úff hvað ég er sátt við hvað allt er að falla í skorður. Eða hvað? Er ekki kraumandi undir niðri óttinn við að núna sé allt dottið í leiðinlegt dúnalogn; regluleg hrynjandi, fyrirsjáanleg framtíð, brá soltið þegar ég áttaði mig á því að ég er búin að skipuleggja og borga sumarfríið með familíunni. Og á hugsanlega fyrir því líka??! Hippastemmningin öll að sogast uppí ryksuguróbótinn. En, mér til málsbóta þá er ég komin í búddahóp og er að læra að kyrja. Það bjargar þessu smá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2006 | 20:44
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)