Hittumst í haust...

Nú er komið vor og ég komin í hlaupahóp og er sem allra mest annarsstaðar en heima hjá mér. Gleðilegt sumar, vona að allir geti notið sín útivið og þurfi ekki að vinna of mikið!!

Nei

Hún þarf eitt blogg hún dóttir mín. Eins og hálfs árs er hún að stimpla sig inn sem sú  ljúfasta einræðisfröken sem ég hef hitt. Með krullurnar og stóru bláu augun sín (að ég eigi bláeyga dóttur með ljósar krullur er staðreynd sem ég er enn að ná) vefur hún okkur hinum fjórum um sína litlu putta með bendingum og einföldum en meitluðum skilaboðum.

Annars er hún í málræktarátaki um þessar mundir og orðin sallast inn. Þetta felst að töluverðu leiti í því að hún bendir og ég segi henni heitin og hún velur hvað hún tekst á við að herma eftir mér. Það gerist ekki endilega strax þó, hún á það til að draga þau upp úr pússi sínu þegar mikið liggur við eins og um daginn heima hjá ömmu S. Þar er forláta þýsk kúkúklukka sem hún benti á og sagði í fyrsta skiptið: Gukka! við gríðarlegan fögnuð viðstaddra. Þetta þakka ég nú helst því reyndar að henni hefur tekist afar vel að nefna heitin á því sem fer í bleyjuna, meira að segja essin heyrast mjög vel í piss.

En að öðrum orðum ólöstuðum þá lærði hún orð núna fyrir skemmstu sem er það áhrifaríkasta hingað til; Nei. Og notar það óspart. Viltu koma uppúr baði? -NEI! Namminammi lýsi! -NEI! Nú áttu að fara inn að lúlla -NEINEINEI!!! En þetta þýðir þó að núna get ég átt smá samskipti við hana. Hún bendir í bókahilluna og segir Bökó og Bíbí og þá veit ég að hún vill bók með fugli í. Þar sem það útilokar kannski eina bók verð ég benda og hún segir Nei þangað til að rétta bókin birtist. Alveg magnað að mér finnst. Nú veit ég nákvæmlega hvað hún vill ekki, sem er góð byrjun þrátt fyrir að við séum ekki endilega alltaf sammála. Enda vona ég að hún komi ekki til með að herma alla hluti eftir mér, og haldi áfram að kunna að afþakka það sem hentar henni ekki.

 

 


eilífur friður

Suma daga er ástin svo lifandi í mér. Ég er ekkert að gera neitt sérstaklega spennandi eða gefandi þannig, bara vakna og laga hafragraut með dóttur minni og vekja svo hina smátt og smátt, fara í morgunkaffi og svo eitthvað í sunnudagsrúnt, H við hliðina á mér og hún afturí sofandi. Og allt er svo gott eitthvað. Sólin skín á mig og svo kemur haglél á mig, og það er bara fyndið og eðlilegt. Það er lágvær og stöðugur gleðisöngur í hjartanu sem nær alltaf að yfirgnæfa allt annað. Svoleiðis dagur í dag.

Ég veit og veit og veit að hamingjan er hugarástand, en hann tekur af mér völdin hugurinn minn alltof oft, lætur mig halda að ég sé hann, lætur mér líða allskyns með því að bregða upp myndum sem ég hef annaðhvort dæmt sem vondar eða góðar. Eins og api í búri sem stekkur til og frá og geiflar sig allan með látum. Og ég fylgi með.

Ég er að læra til hamingjuástands. Það gengur misvel, en í dag fannst mér eins og mér hefði farið fram.


Strákarnir okkar

Kom heim eftir stuttan og nærandi fund í morgun til að finna strákana mína þrjá í misjöfnu ástandi. Maðurinn minn var greinilega búin að vinna sig upp í pirr vegna erfiðleika við að tosa drengina á fætur til að fara í heimsókn austur fyrir fjall. Útskýrði fyrir mér hvað það væri erfið upplifun að vera með tvo næstum fullorðna menn korrandi ínní rúmi nær algerlega meðvitundarlausa langt fram eftir degi. Ég ákvað að þetta væri ekki móment til að gera grín, jánkaði þessu bara sannfærandi. Enda svosem ekkert fyndið við að þurfa að vaða margoft inní þessa rykmettuðu vistaverur til að reyna að hrista lífi í máttlausa búka.

En þetta hafði tekist uppað einhverju marki allavega. Sá eldri sat lystarlaus og glaseygur í stól og hinn með störu að borða seríós. Ég spurði hann hvort hann hefði ekki sofið vel. 'Jú jú. Alveg þangað til ég vaknaði'. 'Svefninn er semsagt ekki góður akkúrat núna?' Spurði ég forvitin. 'Nei, aldrei verið verri... ' Hinn virtist hinsvegar hafa náð einhverjum árangri í að sofa með opin augun því það hreyfðist ekkert á honum fyrr en útidyrahurðin opnaðist og við góluðum einhverja skipun í áttina að honum.

En ég er ekki að kvarta. Ég hef alltaf þolað unglinga mjög vel, og mínir eru ekkert undanskildir. Þeir eru farnir að gera grín að mér og það finnst mér ákveðin frelsun; ég þarf ekki að vera skilyrðislaust með allt á hreinu, ég þarf ekki að hafa eins miklar áhyggjur af að þeir fyllist óöryggiskennd þú ég hafi ekki öll svörin. Þeir eru að fatta sig og ég verð að passa mig að þvælast mátulega mikið fyrir þeim með mínar hugmyndir um hvernig þeir eiga að vera... Þeir eru allavega og hafa alltaf verið uppspretta tækifæra fyrir mig til að bæta einhverju við mig og endurskoða mín viðhorf og hegðun. Stundum finnst mér eins og börnin mín séu að ala mig upp frekar en ég þau.


Hetjur óskast

Ég hef alltaf verið sökker fyrir hasar og ofuhetjumyndum. Samt hefur áhorf á þessar myndir orðið að víkja undanfarið, en sem betur fer á ég stráka sem leyfa mér ekki að komast upp með svoleiðis lengi. Ég horfði á James Bond nýjustu með þeim um daginn. Allir búnir að mæra þessa myndi í botn og þarsem ég náttla svag fyrir þessu erkitöffara hlakkaði ég til að fylgjast með ljóshærða sætabrauðsbrúnku-vöðvahnyklaranum takast á við 007.

En þvílík hörmung. Afhverju þurfa allir erkitöffarar og súperhetjur að vera svona mannlegir allt í einu? Hann svaf ekki einu sinni hjá ofurkynbombunni og varð ÁSTFANGINN í alvöru?? Ég beið bara eftir því að hann pantaði sér grænmetisskot á barnum og snýtti sér í balsam-tissjú. Og svo voru öll dauðaatriðin svona raunveruleg, hann að kyrkja einhvern gæja alveg í 5 mínútur allur í blóði og kærastan fékk sturtutaugaáfall. Afhverju má 007 ekki bara vera yfirborðskenndur töffari með massa af ofuróraunsæislegu dóti sem drekkur mikið og sefur hjá án samviskubits?

Afhverju þurfa Súperman, Batman og Spiderman allir að vera komplexeraðir snillingar frá disfúnksjonal heimili, mjúkir gæjar sem bara lenda í því óvart að verða að verja heiður sinn og æru? Allar nýjustu myndirnar um þá vantar alla teiknimyndarlega tilvísun, þar sem ofurhetjan bara ótrúleg, fantastísk og má vera það. Ég hélt að það væri skilgreiningaratriði að Ofurhetja ætti að vera gædd óvenjulegum mætti og hefði yfirleitt mjög tvívíðan og fyrirsjáanlegan persónuleika, en kannski er ég að misskilja þetta.

Ég held að framleiðendur Heroes séu alveg að fatta þetta hinsvegar, húrra fyrir þeim.  

 

 


Pikk & Mix

Er búin að finna potential lausn á pólitísk-rænum vandræðum mínu. Þarfnast fíníseringar tölfræðings máski, en gæti hugsanlega virkað. Sú er að hver flokkur setur niður á kjörseðilinn eins og 20 - 30 stefnumál ásamt því fólki sem býður sig fram í engri sérstakri röð en með mynd svo allir viti hver er hvað. Svo merkir kjósandi við þau stefnumál sem hún er fylgjandi og líka við þá sem hún treystir til að stjórna landinu, auðvitað í samræmi við einhverjar leikreglur eða takmarkanir bla bla, og svo er barasta fundið út með þessu hvað meirihlutinn vill og hverjir eiga að setja lög í samræmi við þann vilja.

Þeir sem fá flest atkvæði verða ráðherrar, og þeir sem koma á eftir fá einhverjar formennskur í nefndum og sona. Má vera að sá 64. inn verði forseti Alþingis. Varamenn koma svo í röð á eftir. Svona veljum við og höfnum, allt eftir smagogbehag, og þetta fólk veit hreinlega fyrirfram hvað flestir vilja í öllum veigamestu málunum. Þetta finnst mér afar lýðræðisleg aðferð sem þó stuðlar að róttækum breytingum á flokkakerfinu, ákvarðanatökuferli ráðamanna og eykur vald hins almenna kjósanda svo fátt eitt sé nefnt.

Ég hef nefnt þetta við fólk en engin hefur sagt: 'nei, Ágústa mín, þú ert náttúrulega klikkuð að halda fram svona vitleysu!'. Ekki nokkur maður.

 


Lifi Gribban.

Ég hef verið að vanrækja mína innri Gribbu. Áttaði mig á þessu í gær í samtali við mína ástkæru GB. Ég lýsti því fyrir henni hvernig maður kemst yfir flensu á tveimur dögum með tilteknum remedíukúr, mataræði og hugarfari. Hún hló að mér og sagði mér að ég væri bara svo mikil Gribba að virusarnir yrðu að láta í minni pokann. Langt síðan ég var kölluð Gribba síðast. Ég var búin að gleyma því hvað það er gott. Því eins og hún sagði það, þá er Gribban kona sem ekki lætur ytri aðstæður ráða því hvernig henni líður. Hún er sjálfstæð og treystir því að lífið færi henni það sem hún þarf. Hún er frjáls í hugsun og velur ekki endilega auðveldu leiðina. Hún er sönn frekar en fullkomin.

Þessvegna eru sumir hræddir við Gribbuna.

Lifi Gribban!


Lífið er tík

Ofsalega færi það illa með mig að vera pólitíkus. Ég á nefnilega alveg í nógu basli með það hvað ég er oft reiðubúin að skella skuldinni á aðra en mig sjálfa ef eitthvað er ekki eins og ég vil hafa það. Mig langar nefnilega að geta hætt að gagnrýna annað fólk neikvætt. Bara alveg. Soldið hippalegt ég veit það, en mér finnst þetta byggja meira á praktík; það fer alltof mikill tími og orka í þjark og reipitog, sbr eldhúsdagsumræður á Alþingi, æ rest mæ keis.

Ég er ekki að halda fram að stjórnmál séu almennt mannskemmandi, bara gamaldags eins og þau eru praktíseruð ennþá. Ég held nefnilega að það úreldist bráðum sem aðferð að viðhalda antagonísku sambandi við aðra. Það skapar nefnilega hringavitleysu sem hindrar öll eðlilegheit, fólk verður að brynja sig og fela, réttlæta sig og drulla yfir aðra. Slæmt fyrir þroska. Ég held því fram. Við erum alltof oft að gefast upp fyrir eigin ótta.

Ekki það að ég hafi svörin, mér finnst bara þess virði að spyrja hvort þetta geti ekki verið öðruvisi, hvort ekki sé komin tími á þróun... Það eru nefnilega til ákveðnar grunnreglur sem lúta að lífinu öllu, og ég er sannfærð um að ef við finnum út hverjar þær eru og lærum að fylgja þeim í stað þess þykjast stjórna, þá hættir kaósið.

Ókei, soldið hippalegt. En satt. Held ég.


112!

Í dag hringdi ég í fyrsta skipti í 112. Í nokkra daga hefur maðurinn minn þjáðst af flensu. Ekkert óvanalegt við hana, bara svona hor og hósti, slappleiki og verkir víðsvegar. Ég hef verið hress og hjúkrað honum af bestu getu, og var þessvegna farin að hrósa sjálfri mér í huganum ótrúlega hjúrkunarhæfni í gær þegar hann var farin að borða og segja brandara.

En í morgun var smá ræfill í honum sem fór stækkandi, þangað til hann kúrði sér í fósturstellingu í stól inní stofu og hvíslaði að 'það væri eitthvað mikið að sér...' Ég náttúrulega brást við með því að hella sjóðandi heitu vatni í skál með dropa af Eucalyptus úti og flutti hann veikburða að henni og sagði honum að anda vel að sér. Hann fór að anda, en svo hætti hann að geta andað. Greip í handlegginn á mér og reyndi að soga að sér lofti með miklu ískri og harmkvælum. Ég hélt fyrst að hann væri að fíflast í mér, ekki alveg úr takti fyrir hann, en þegar hann var farinn að hvítna og svo blána varð mér ekki um sel. Ég þaut í símann og fann sterka óraunveruleikatilfinningu hellast yfir mig þegar ég valdi 112, eins og ég fylgdist með sjálfri mér úr fjarska.

Ég reyndi að rifja upp fyrstu hjálp, en þar leyndist ekkert sem ég gat notað, ég bara panikkeraði. Á meðan maðurinn minn lyppaðist fram á borðið í andnauð, kaldsveittur með tóm augu, gat ég ekkert gert fyrir hann. Ég orðin virkilega skelkuð, stóri sterki minn barðist máttvana fyrir hverjum andadrætti með hrikalegum soghljóðum og ég var farin að skæla þegar mér var svarað. Ég útskýrði alvöru málsins og áður en 3 mínútur voru liðnar voru mætt inn á gólf til okkar 5 manns í gulum göllum. Þá hafði hann hjarað aðeins við, en sagðist vera allur dofinn og var greinilega ekki alveg í sambandi, rennsveittur og náhvítur var hann lagður í sófann og allskonar græjur festar við hann. Ekkert fannst að honum, þó hann virtist hressast aðeins við að fá súrefni.

Þannig að honum var ekið á slysó. Þar fór smá saman að brá af honum mesta slenið og öll möguleg próf gerð aftur og meira til. Hann fór inn um 2 leitið og lá í rúmi með slöngur og nálar í sér þangað til rétt fyrir 8. Þá úrskurðaði læknir að hann væri með inflúensu. Svona sem gamalt fólk deyr úr. Ekki bara flensu. Það veit engin afhverju hann hætti að anda og dofnaði, það var allavega ekki Eucalyptus dropinn:) Þannig að við verðum bara að vona að þetta gerist ekki aftur...

Ég er svo þreytt og glöð núna. Við erum saman heima með krökkunum og hann fær ðe rojal trítment. Svona atvik setja konu í samband við raunveruleikann. Ég er þakklát fyrir að okkar áminning var svona meinlaus þegar allt kom til, og ég ætla að láta þetta hafa áhrif á mig til hins betra. En fyrst held ég að ég þurfi að vera lítil í smá stund.


Legið

Var að sjá Leg áðan. Hugleikur Dagsson og allir sem að þessari sýningu koma eru leikhúsbjargvættir. Þarna er ég búin að sitja í vetur (Þjóðleikhúsið þ.e.) og rembast við að láta mér ekki leiðast. Steininn tók endanlega úr þegar við þraukuðum í gegnum Bakkynjur. Þvílík ófreskja sem sú uppsetning var. Þannig að, HD var undir töluverðri pressu frá leikhúshópnum að réttlæta kaup á árskorti sem átti að lífga upp á dimman vetur.

Það gleður mig þessvegna ómælt að þetta verk stóð undir yfirvöxnum væntingum mínum og ríflega það. HD er bara snillingur, sýnir hvar mörkin líggja með því að labba yfir þau þvers og kruss og kemst algerlega upp með það. Ómótstæðilega óþekkur. Mæli með Legi, fáránlega fyndið og beitt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband